VIÐ BJÓÐUM UPP Á MARGVÍSLEGA ÞJÓNUSTU Í TRJÁVINNU
Trjáfellingar og snyrtingar eru okkar fag og við vinnum fyrir alla. Meðal viðskiptavina okkar eru einstaklingar, sumarhúsaeigendur, bændur, félagasamtök, sveitarfélög, bæjarfélög, opinberar stofnanir ofl.
Trjáfellingar í görðum

Trjáfellingar í görðum, við hús og önnur mannvirki eru mjög vandasamar. Við metum áhættu eftir ströngu áhættumati og gerum áætlun um hvernig er best að vinna verkið. Stundum er hægt að fella tré í heilu lagi, afkvista það og búta niður á jörðinni en það er ekki alltaf raunin. Ef það er ekki hægt þarf annað hvort að klifra upp í tréð og búta það niður eða nota kranabíl. Við erum sérfræðingar í trjáfellingum með klifri og þeirri línuvinnu sem er nauðsynleg með því en notumst auðvitað við kranabíla þar sem það á við.

Trjásnyrtingar
Dauðar greinar, skuggi frá trjám og skemmdir í trjám þurfa ekki alltaf að vera ávísun á að fella tré. Það er hægt að snyrta tré eins og runna og ætti að gera það öðru hvoru. Við getum fjarlægt skemmdir og/eða grisjað greinar eða trjákrónu til að opna tréð. Með því er hægt að auka heilbrigði og jafnvel minnka skugga frá trjám.
Grisjun á skógum

Frá því 2006 hefur grisjun á skógum og skógarreitum verið aðal verkefni Skógarmanna. Allt frá fyrstu grisjun þar sem efnið er skilið eftir til að grotna niður, í grisjanir þar sem sagaðir eru slóðar og allt timbur lagt upp fyrir útdrátt/útkeyrslu.
Yfirleitt fer grisjunin þannig fram að skógfræðingur tekur út skóginn og metur grisjunarþörf. Hann telur trén, mælir stærð og metur ástand þeirra. Út frá þessu, tegund trjáa og staðsetningu ákveður hann hversu mörg tré eiga að standa eftir grisjun. Við förum síðan inn í skóginn og fellum lélegustu trén út frá því hversu bein þau eru, vaxtarlagi og hversu vel toppurinn á þeim lítur út.

Útskurður, pallar
og stígar
Ævintýraverur, áningastaðir, pallar, stígar og brýr lífga upp á skóga og garða.
Við tökum að okkur að leggja stíga og smíða úr grisjunarvið ásamt því að skera út ýmsar furðuverur og tákn úr trjástubbum.
Í skógarreitum og görðum, allt frá Sauðárkróki til Húsavíkur er hægt að finna útskurð, bekki, skógarstíga og byggingar unnar úr grisjunarvið og því sem til fellur á staðnum.
Hér fyrir neðan er sýnishorn af hinum ýmsu verkum sem við höfum skilið eftir okkur.























